Annað land, annað líf
Frá 1870-1914 yfirgáfu um 16.000 Íslendingar heimaland sitt og hófu nýtt líf í Norður-Ameríku. Þessi sýning gefur góða mynd af því hvers vegna þau fóru, hún lýsir ferðalaginu til fyrirheitna landsins og áskorunum sem Íslendingarnir stóðu frammi fyrir í nýjum heimkynnum.
Sýningin varpar ljósi á líf þeirra þúsunda Íslendinga sem fluttust til „nýja heimsins“. Raktar eru í máli og myndum ástæður þess að um fjórðungur þjóðarinnar fluttist búferlum til Ameríku. Margvísleg harðindi, aflabrestur og erfiðar félagslegar aðstæður eru þættir sem fjallað er um á sýningunni enda eru þeir helstu orsakavaldar fyrir hinum mikla fólksflótta. Leitast er við að sýna á sem gleggstan hátt hvernig Íslendingar bjuggu á seinni hluta 19. aldar. Sýnt er á kortum hvaðan fólk fluttist og hve margir og hver heimkynni þeirra urðu vestan hafs. Einnig er lýst væntingum fólksins, undirbúningi fyrir brottflutning, ferðalaginu sjálfu og aðstæðum sem biðu þess er vestur var komið. Sýningin var unnin af Byggðasafni Skagfirðinga fyrir Vesturfarasetrið og er í eigu Byggðasafnsins.