Hverjir fóru?
Árið 1870 var íbúatala á Íslandi um 70000 manns. Um það bil 75% landsmanna voru bændafólk og höfðu 10% lífsviðurværi sitt af fiskveiðum og fiskvinnslu og 15% voru iðnaðarmenn eða í þjónustu þess opinbera. Samanlagður íbúafjöldi Reykjavíkur og Akureyrar var þá um 3000 manns. Fátt var um aðra bæjarbyggð og langflestir íbúanna bjuggu í dreifbýli. Margir lifðu undir fátæktarmörkum við sárustu örbyrgð og höfðu afar litla möguleika á að sjá fram á betra líf sér og afkomendum sínum til handa. Efnahagsástand þjóðarinnar átti stóran þátt í ákvörðun fólks um að flytjast á brott enda ferðuðust fulltrúar skipafélaga um landið og hvöttu óspart til brottflutnings.
Er tímar liðu fram og brottflutningur jókst átti fólk fjölskyldu og vini vestanhafs sem sendu boð og bréf sem lýstu reynslu sinni í “nýja heiminum” með jákvæðum hætti. Skýrslur sýna að nánast jafnt hlutfall var með brottfluttum konum og körlum og voru um 80% þeirra undir 40 ára aldri. Nálægt 2/3 þessa fólks var búsett á norðan- og austanverðu landinu. Fullyrða má að það þurfti hugrekki og hreysti til að takast á við þá löngu og erfiðu leið sem þeim var búin. Flestir velktust ekki í vafa um að þeir mundu aldrei líta föðurland sitt aftur.
Hve margir fóru?
Júníus H. Kristinsson segir í bók sinni Vesturfarar sem kom út í Reykjavík 1983 að 14.268 Íslendingar hafi flust til Norður-Ameríku milli 1870 og 1914. Taka verður tillit til að þessi tala tekur aðeins mið af þeim sem voru skráðir og ljóst er að ekki hafa allar skrár varðveist auk þess sem margir komu sér með einum og öðrum hætti hjá því að láta skrá sig. Fullvíst má því telja að fjöldi brottfluttra hafi verið mörgum þúsundum fleiri. Almennt er talið að milli 15000 til 20000 Íslendingar hafi flust á brott eða um 20-25% landsmanna.
Hvers vegna fóru svo margir?
Engin ein ástæða er fyrir því að fólk flutti vestur um haf. Fjöldi fólks fór vegna erfiðra aðstæðna en margir fóru beinlínis í leit að ævintýrum og nýjum tækifærum. Seinni hluti 19. aldar var erfiður veðurfarslega og markaðist einnig af miklum náttúruhamförum sem leiddu af sér efnahagslega erfiðleika. Hver kaldi veturinn rak annan með köldum sumrum í kjölfarið , ís lá að landinu, stormar, sandfok og snjókyngi leiddu til landfoks, uppskerubresta, heyskorts og falli búpenings um gjörvallt landið. Öskjugos árið 1875 þakti landið ösku norðan- og austanvert og eitrað gas jók enn við erfiðleika bænda í örvæntingarfullri lífsbaráttu þeirra. Fréttir utan úr heimi bárust til landsins um fjöldafólksflutninga til Norður-Ameríku frá Evrópu og líkt og í Evrópu voru Íslendingar að upplifa fjölmargar breytingar, svo sem ónóg tækifæri til að efnast af búskap sínum og fá notið annarra atvinnutækifæra. Margir hugsuðu til þess að geta eignast eigið landrými og fá notið hagstæðari tækifæra og losað sig úr þeim vonlitlu aðstæðum sem þeir bjuggu við.
Nokkrir velmegandi Íslendingar hrifust af ævintýrinu og voninni um hagnað. Ákvörðun þeirra var tekin af fúsum og frjálsum vilja frekar en af illri nauðsyn. Á seinni árum brottflutninganna fóru margir einnig til að tengjast fjölskyldu og vinum sem sestir voru að og voru tilbúnir til að veita þeim aðstoð og hjálp við að koma sér fyrir.
Árferðisannáll
Árferðisannáll 1870‑1914
Birt með leyfi Byggðasafns Skagfirðinga.
Mikill fjöldi Evrópubúa flutti vestur um haf á 19. öld til að nema land á víðáttum Norður-Ameríku og njóta tækifæra nýja heimsins. Íslendingar voru seinir til. Það var ekki fyrr en á síðasta fjórðungi aldarinnar að fólk tók sig upp og flutti búferlum á vit ævintýranna vestan hafs. Hver og einn hafði sína eigin ástæðu til að kúvenda lífi sínu, en margir nefndu illt árferði, sem allir skyldu og hafði áhrif á hina endanlegu ákvörðun þótt það væri ekki einhlýt skýring, því hennar var fremur að leita í efnahag, fjölskylduböndum, von um betri afkomu, ævintýraþrá og öðrum persónulegum ástæðum.
1870
Þokkalegur vetur, hafís um vorið.
Fjöldi vesturfara 6.
1871
Mikill hafís en stóð ekki lengi, tíðarfar almennt sæmilegt.
Fjöldi vesturfara 12.
1872
Yfirleitt gott ár, frosthörkur undir árslok.
Fjöldi vesturfara 22.
1873
Miklar frosthörkur í byrjun árs, harður vetur og vorkuldar, töluverður hafís. Heyskapur lélegur, haustið slæmt.
Fjöldi vesturfara 323.
1874
Afar kaldur vetur, frost fór yfir 20 stig og jafnvel yfir 30 stig fyrir norðan. Hafís var við landið, fór en kom aftur í júní og var að hrekjast við land lengi fram eftir. Veturinn var kallaður „Hreggviður stóri“ eða „Svellavetur hinn mikli“.
Fjöldi vesturfara 391.
1875
Milt ár, einkum veturinn. Í ársbyrjun hófust eldsumbrot í Öskju og síðar á Mývatnsöræfum. Seint í mars hófs fádæma vikurgos í Öskju og náði öskufallið öllum byggðum austanlands og lagði fjölda jarða í eyði á Fljótsdal. Í júlí gerði ógurlegt rok og haglél í Biskupstungum og lamdi niður gróður. Þóttust menn aldrei hafa séð slík firn.
Fjöldi vesturfara 59.
1876
Hafís fyrir Norðurlandi, fór snemma í maí og brá þá til betri veðráttu. Grasspretta var góð. Fiskafli góður nema við Faxaflóa og þar voru fram undan aflabrestsár svo Gullbringu‑ og Kjósarsýslu var veitt svokallað hallærislán hvað eftir annað.
Fjöldi vesturfara 1190.
1877
Harðindi fram á vor og heyskapur lélegur. Annars staðar en við Faxaflóa fiskaðist sæmilega.
Fjöldi vesturfara 59.
1878
Veður sæmilegt framan af en þá gerði hafþök af ís sem fór ekki fyrr en í júní. Heyskapur var víðast rýr. Í október gerði skaðræðis veður sem olli stórtjóni fyrir norðan. Aflabrögð víðast sæmileg.
Fjöldi vesturfara 473.
1879
Miklar frosthörkur í ársbyrjun. Eyjafjörð lagði út undir Hrísey og gengið var á ís út í Málmey á Skagafirði. Annars meðalár til lands og sjávar.
Fjöldi vesturfara 322.
1880
Blíðskaparveður um allt land og varð vetrar lítið vart. Hagar voru grónir um sumarmál. Sæmileg aflabrögð. Um haustið tók veður að harðna og undir árslok var komin grimmdartíð.
Fjöldi vesturfara 94.
1881
Mestu hörmungar tímabilsins hefjast. Kuldarnir héldu áfram og í janúarbyrjun skall á blindhríð með ógurlegri veðurhæð og hörkufrosti er stóð dögum saman. Miklum snjó hlóð niður nyrðra. Hafís rak að landinu og bjarndýr gengu á land og ráfuðu langt fram í sveitir. Firði lagði um allt land og var t.d. hægt að fara á ís frá Reykjavík til Akraness, um Gilsfjörð allan og Breiðafjörð eins langt og eyjar náðu. Komst frostið upp í 37 stig norðanlands og var fannburður mikill. Frost fór víða ekki úr jörðu um sumarið. Syðra var rigningasamt haust og héldust hlýindi til áramóta.
Fjöldi vesturfara 144.
1882
Umhleypinga tíð var mikinn hluta vetrar en fór batnandi þegar á leið. Í apríl snerist til norðanáttar með frostum og hríðum norðanlands en kuldasteytingi syðra. Mikið sandrok gerði á Rangárvöllum svo að ófært var milli bæja og eyðilögðust margar jarðir. Hafís rak norðanlands og fyllti alla firði og lá fyrir öllu Norðurlandi allt sumarið. Aflabrögð voru misjöfn og yfirleitt léleg framan af. Mislingafaraldur geisaði um sumarið og var það kallað „Mislingasumarið“, margir létust. Skepnuhöld urðu mjög slæm vestanlands og norðan. Landstjórnin lánaði allmikið fé í þær sýslur sem harðast urðu úti. Leitað var samskota, einkum í Danmörku, Noregi og Englandi og safnaðist stórfé. Mörg skip voru send til landsins með matvæli og fóður.
Fjöldi vesturfara 347.
1883
Betra árferði, sæmilegur heyskapur og skepnuhöld. Aflabrögð sæmileg.
Fjöldi vesturfara 1.215.
1884
Veturinn var í meðallagi. Aflabrögð voru rýr.
Fjöldi vesturfara 121.
1885
Illviðrasamur vetur, stormar, frost og stórhríðar víða um land. Mikil snjóþyngsli ollu ægilegum snjóflóðum á Seyðisfirði þar sem 26 manns létu lífið og það voraði seint. Aflabrögð yfirleitt léleg.
Fjöldi vesturfara 141.
1886
Harður vetur og óvenjuleg snjóþyngsli. Seint voraði, enda hafís við land. Sláttur byrjaði seint og var erfiður. Aflabrögð víðast rýr.
Fjöldi vesturfara 504.
1887
Afleitur vetur, frosthörkur, stormar og hafís. Hey lítil og vond frá sumrinu á undan og varð fellir hér og þar, einkum nyrðra. Bjargleysi varð svo mikið að sumir fóru á vergang og sá á mönnum. Aflabrögð góð.
Fjöldi vesturfara 1.947.
1888
Vetur enn harður og hafís lukti landið allt að Vestmannaeyjum og lá fram í júlílok. Spretta varð sein, en tíðarfar gerði gott er leið á sumarið og heyskapur varð góður. Aflabrögð voru með besta móti.
Fjöldi vesturfara 1.109.
1889
Gott ár til lands og sjávar.
Fjöldi vesturfara 702.
1890
Tíðarfar víðast í meðallagi. Óvenjulegt áhlaup með fannkyngi í júnímánuði í um vikutíma.
Fjöldi vesturfara 217.
1891
Tíðarfar var sæmilegt og heyskapur þokkalegur. Aflabrögð nokkuð misjöfn.
Fjöldi vesturfara 216.
1892
Frostavetur. Firði lagði, fannburður var mikill og vetrarríki. Hafís rak að landi og lá lengi. Sláttur hófst ekki fyrr en seint í júlí eða í ágúst, enda gerði stórhret í júlí.
Fjöldi vesturfara 290.
1893
Mildur vetur nema á Austfjörðum þar sem gerði harðindakafla. Aflabrögð voru sæmileg.
Fjöldi vesturfara 725.
1894
Fremur gott tíðarfar og heyskapur eftir því. Votviðri var þó til baga á Suðurlandi. Aflabrögð voru yfirleitt sæmileg.
Fjöldi vesturfara 113.
1895
Afar mildur vetur, varla sást snjó fyrr en á þorra. Voraði vel og heyskapur varð góður. Afli sæmilegur nema við Faxaflóa.
Fjöldi vesturfara 9.
1896
Fremur góður vetur en heyskapur varð víða erfiður vegna votviðra langt fram eftir sumri. Ægilegir jarðskjálftar hófust á Suðurlandi í ágúst, fjöldi bæja hrundi og manntjón varð. Afli brást við Faxaflóa en annars voru aflabrögð sæmileg.
Fjöldi vesturfara 10.
1897
Tíðarfarið var misjafnt og erfitt. Heyskapur var í löku meðallagi sakir votviðra. Afli varð rýr við Faxaflóa og hagur manna þar bágborinn. Annars staðar var afli sæmilegur.
Fjöldi vesturfara 55.
1898
Rosafenginn vetur sunnanlands og vestan og svo erfiður á Norðurlandi að lá við felli. Afli enn rýr við Faxaflóa, annars staðar sæmilegur.
Fjöldi vesturfara 87.
1899
Fannkomur víða um land og hagleysur langt fram á vor. Grasvöxtur var víða ágætur en votviðri hömluðu góðri nýtingu. Afli brást enn í Faxaflóa. Annars staðar var hann misjafn.
Fjöldi vesturfara 157.
1900
Meðalár að flestu leyti. Afli var nú góður í Faxaflóa sem annars staðar.
Fjöldi vesturfara 725.
1901
Góðæri til lands og sjávar og aflabrögð einkum góð á þilskipum.
Fjöldi vesturfara 258.
1902
Harður vetur og hafísar fram eftir vori fyrir öllu Norðurlandi og Austfjörðum. Góð sumartíð og heyskapur í meðallagi. Aflabrögð sæmileg.
Fjöldi vesturfara 313.
1903
Meðalár til lands og sjávar.
Fjöldi vesturfara 677.
1904
Góð tíð og hiti í meðallagi, en úrkoma yfir meðallagi.
Fjöldi vesturfara 313.
1905
Óhagstæð tíð fyrstu tvo mánuði ársins. Annars góð utan síðsumars fyrir norðan. Hiti og úrkoma í meðallagi.
Fjöldi vesturfara 282.
1906
Tíðin var óhagstæð framan af og í aprílbyrjun geisaði illviðri. Úrkoma nærri meðallagi og fremur kalt.
Fjöldi vesturfara 57.
1907
Veður óhagstætt fram yfir mitt árið, sérstaklega um vestan‑ og norðanvert landið. Óvenju þurrt og kalt sumar.
Fjöldi vesturfara 36.
1908
Tíð mjög hagstæð, fremur hlýtt og úrkoma yfir meðallagi.
Fjöldi vesturfara 4.
1909
Hagstætt tíðarfar. Þurrkar stopulir norðaustanlands um sumarið. Úrkoma undir meðallagi, hiti í meðallagi.
Fjöldi vesturfara 41.
1910
Erfið tíð, einkum framan af fyrir norðan. Betri um sumarið og hiti í meðallagi og úrkoman undir meðallagi.
Fjöldi vesturfara 87.
1911
Tíðin umhleypingasöm en nokkuð hagstæð. Úrkoma og hiti í meðallagi.
Fjöldi vesturfara 90.
1912
Veður lengst af hagstætt syðra en óhagstæðara norðaustanlands. Hiti í meðallagi, útkomulítið.
Fjöldi vesturfara 84.
1913
Óhagstætt veður á suður‑ og vesturlandi, mikið óþurrkasumar. Úrkoma í meðallagi annars staðr á landinu, einnig hitinn.
Fjöldi vesturfara 156.
1914
Veður óhagstætt lengst af, voraði seint.
Fjöldi vesturfara 85.
Heimildir:
Magnús Jónsson: Saga Íslendinga IX. 2. Reykjavík 1957.
Trausti Jónsson: Veður á Íslandi í 100 ár. Reykjavík 1993.
|