Opnunartími setursins:
     1. júní til 1. september
     Frá kl: 11.00 - 18.00

 

VELKOMIN Á HEIMASÍÐU VESTURFARASETURSINS!

Vesturfarasetrið á Hofsósi var stofnað 1996 til heiðurs Íslendingum sem fluttust til Norður Ameríku á árabilinu 1850-1914. Markmið Setursins er að segja sögu fólksins sem fór og efla tengslin milli afkomenda þeirra og frændfólksins á Íslandi. Vesturfarasetrið býður upp á fjórar sýningar í þremur húsum auk ættfræðiþjónustu, bókasafn, íbúð fyrir fræðimenn og fleira. Sýningar Setursins varpa ljósi á erfiða stöðu fólksins í landinu og skýra ákvörðunina um að flytjast búferlum til Vesturheims. Gestir Setursins fá tækifæri til að afla sér upplýsinga um málefnið og fræðast af starfsfólki og sérfræðingum sem starfa á Setrinu.

...hverjum augum sem menn kunna á vesturferðirnar að líta þá er ég alveg viss um að öllum skynsömum mönnum kemur saman um það að af þeim hreyfingum sem orðið hafa meðal þjóðar vorrar síðan á siðbótartímanum sé vesturferðahreyfingin þýðingarmest. Hún hefur alveg vafalaust gripið hugi þjóðarinnar almennara og með meira afli en nokkur önnur hreyfing, sem komið hefur upp meðal hennar á síðustu 300-400 árunum, og hún hefur leitt hugi íslenskrar alþýðu inn á brautir sem henni voru svo að segja með öllu ókunnar áður. Hver einasta þjóð í heiminum telur vesturferðahreyfinguna afar þýðingarmikið atriði í sögu sinni. Hvervetna hafa þær fært inn í þjóðirnar nýtt fjármagn, nýja vinnuaðferð, nýjar hugsjónir, í einu orði nýtt líf. En af því að þjóð vor er fámennust allra þjóða, fátækust allra þjóða og afskekktust allra þjóða, af því að menn hafa verið hér á landi í meiri hættu en annars staðar við því að verða að þumbaralegum sérvitrum eintrjáningum, og láta sitt þjóðarlega andrúmsloft verða að innibyrgðu baðstofulofti, þar sem lífsstraumar heimsmenningarinnar ná aldrei um að leika, þá skyldi mig ekki kynja þó að allir sanngjarnir menn komist á endanum að þeirri niðurstöðu að vesturferðahreyfingin verði tiltölulega þýðingarmeiri fyrir vora þjóð en nokkra aðra þjóð í heiminum.

            Einar H. Kvaran (fyrirlestur í Reykjavík 2.nóvember 1895)

fimmtudagur 8 desember 12 2016

Vesturfarasetrið á Fésbók: